Vangaveltur

um veröldina okkar

Sálfræðin er ung grein, var í raun ekki stofnuð fyrr en um 1880 og þá í formi tilraunasálfræði. Ég því hef verið að velta því fyrir mér hvort einir af þeim upprunalegu „sálfræðingum“ eins og við þekkjum þá aðallega í dag, séu í raun prestar. Vissulega hafa prestar lengi verið til staðar til að hlýða á erfiðleika og sorgir manna, en ég er frekar að hugsa um sjálfan skriftarstólinn úr kaþólsku kirkjunni. Þar gátu einsaklingar komið og létt á sér, sínum áhyggjum, hugsunum, hegðun sem þeir skömmuðust sín fyrir eða þóttu óviðeigandi, og fengu tilbaka speglun á það ásamt verkefni til að leysa þann vanda í formi t.d. maríubæna. Fólk taldi sig hafa bætt fyrir syndir sínar eftir þetta og upplifði eflaust mikinn létti.

Ég veit að þetta er mikil einföldun á starfi þeirra en ég held að þetta spili mikinn þátt í menningu þessara samfélaga, sérstaklega áður fyrr. Þarna gafst fólki færi á að fá „fyrirgefningu“, e-n til að hlusta á sig, deila með sér áhyggjum. Það hefði eflaust verið erfiðara að fara til t.d. prests og horfa á hann beint í andlitið og játa margt af því sem kirkjan og samfélagið fordæmdi. Því er þetta form kannski ekki svo galið. Við þekkjum þó þetta form í gegnum ráðgjöf í gegnum netið eða ráðgjafar í gegnum tölvupóst.

Ættum við að koma upp sjálfsölum í t.d. Smáralind ? Gætum kallað þá sjálfsálar 🙂

Þér líður ekki svona ! Það getur ekki verið

Um daginn skaust ég útí búð til að kaupa mjólk á morgunkornið handa krökkunum mínum, sem voru þá 4 og 7 ára. Lét þau vita og var kannski 10-15 mínútur. Þegar ég kem aftur þá tekur stelpan mín 7 ára á móti mér með tárin í augunum og spyr hvers vegna ég hafi verið svona lengi? Ég hefði geta sagt „ég var ekkert lengi!“ eða „láttu ekki svona, þetta voru bara 15 mínútur“. Hvoru tveggja eru algeng viðbrögð hjá okkur og eflaust hef ég sagt svipaða hluti undir öðrum kringumstæðum. Held að flestir kannist við það.

​Þá hefði ég hins vegar farið á mis við að viðurkenna tilfinningar hennar Ég hefði þá í raun verið að segja að það sem hún væri að upplifa væri ekki satt eða röng upplifun. Hvorutveggja væri í raun dæmi um ógildingu (invalidation) á hennar líðan. Ég sagði því frekar „já var ég svona lengi“ og „varstu orðin hrædd“. Hún jánkaði því og ég tók stuttlega utan um hana og lét síðan mjólkina á borðið og við ræddum það ekkert frekar.

​Þetta er ekki beint dæmi sem hefði neinar alvarlegar afleiðingar í för með sér en ég held að þetta gæti lýst því ágætlega að setja orð á tilfinningar og viðurkenna líðan annarra. Bæði styrkir þetta hennar trú á að lesa rétt í líðan sína og setur orð við tilfinningu hennar. Jafnvel þó ég hafi ekki verið sammála henni að ég hafi verið lengi 🙂 þá sá ég stöðuna frá hennar sjónarhorni. Þannig geta tveir hlutir verið sannir og ekki að annar hafi bara rétt fyrir sér.​

Þetta getur verið gagnlegt tól í samræðum við aðra og getur komið í veg fyrir tilfinningalegan óstöðugleika sem getur myndast í kjölfarið á ógildingu á líðan viðkomandi.​

Öll gerum við þessa hluti annað slagið „þú ert ekki orðinn aftur svangur!“ eða „þetta var ekki svona vont“. En hvernig er að alast uppí aðstæðum þar sem viðkomandi fær í sífellu skilaboð um að hann sé öðruvísi / gallaður / eða upplifi hlutina a rangan hátt? Við erum ólík á margan hátt.

Það má líkja sálfræðingum við sjúkraþjálfara

Fólk leitar til þeirra gjarnan t.d við e-s konar álagsmeiðsli (úr íþróttum, vinnu eða líkamsstöðu), eða ef það hefur lent í slysi og kennir sér meins í líkamanum. Sjúkraþjálfarinn hefur meðferð, t.d. með nuddi eða bólgueyðandi meðferð með þei tækjum sem honum standa til boða. Það krefst sérþekkingar að átta sig á að sársauki í hálsi getur orsakast af e-s konar álagi í baki, sem þarf síðan að greina og vinna með. Viðkomandi kemur í nokkur skipti í meðferð, fær ráðgjöf um hvernig hann skuli t.d. haga líkamsstöðu sinni, hvíla eða nudda til að hljóta bata. Oft tekur það töluverðan tíma og breytinga af hálfu viðkomandi.

Sumir fara aldrei til sjúkraþjálfara. Þeir lenda vissulega í e-s konar skakkaföllum en vegna t.d. góðrar líkamlegrar heilsu eða það vinnur í vandanum sjálf veldur því að aðkoma sjúkaþjálfara er óþörf.

Stundum getur ýmis konar álag t.d. slök líkamsstaða við tölvuskjá ollið varanlegri hryggskekkju ef ekkert er gert eða að viðkomandi þjáist af höfuðverkjum lengi vel vegna bólgu í hálsi vegna slæmrar líkamsstöðu. Ef ekkert er að gert getur alvarlgur vandi þróast með tímanum sem skerðir lífsgæði viðkomandi.

Sama má segja um starf sálfræðings. Sumir þurfa aldrei að koma, hafa gott stuðningsnet, góð bjargráð osfrv. Það er gott. Aðrir eru undir ýmiskonar álagi í vinnu, samskiptum eða daglegu lífi, eða lenda í ýmiskonar erfiðleikum sem getur valdið andlegum verkjum í heila, sem lýsir sér t.d. sem kvíði, þunglyndi, lágt sjálfsmat ofl. Þá getur verið gott að leita til fagmanns sem getur greint vandann og ýtt á og nuddað þá punkta sem eru að valda verkjunum. Síðan ætti viðkomandi að fá leiðbeiningar sem geta unnið frekar á vandanum og fyribyggt frekari skaða.

Ég hef sjálfur leitað til sálfræðings á mínu yngri árum og gagnaðist það mér vel. Sem betur fer eru viðhorf til andlegra erfiðleika að breytast og það orðið viðurkennt að það lífið er bara helvíti strembið.

Þess vegna mundi ég helst kjósa að sálfræðiþjónusta yrði niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands, líkt og t.d. sjúkraþjálfun. Sálfræðingar eru löggilt heilbriðgisstétt og ættu að hljóta sömu meðferð og aðrir.

Hugsanlega eru yfirvöld hrædd um aukinn kostnað sem hlýst af því, að aðsókn til þeirra yrði svo mikil að kostnaður færi uppúr öllu valdi. Það mætti því tengja það við beiðni frá lækni til að hljóta niðurgreiðslu, líkt og gert er með sjúkraþjálfun. Til lengri tíma myndum við væntanlega spara krónuna en kasta aurnum.

Stoppum vandann áður en hann verður okkur of dýrkeyptur.

Scroll to Top